Í viðskiptum á netinu þarf oftast að nota kreditkort. Í flestum tilfellum er verið að versla við ábyrgan aðila en stundum kemur það fyrir að ekki er alveg öruggt að viðskiptin séu við aðila sem er öruggur. Þá er gott að vera með fyrirframgreitt kreditkort sem allir íslensku bankarnir bjóða upp á.
Með því að nota fyrirframgreitt kreditkort þá er hægt að takmarka þá upphæð sem óheiðarlegir aðilar geta komist yfir og þar með takmarkað það vesen sem fylgir því að kreditkortanúmer komast í hendur glæpamanna. Auðvelt að stjórna upphæðinni sem er inni á kortinu og þar með minnka áhættuna.
Til viðbótar við það sem er nefnt hér að ofan þá er gott að vera með fyrirframgreidd kreditkort á ferðalögum erlendis. Ef kortið glatast eða er afritað þá er minni upphæð sem þrjótarnir ná.
En hafðu í huga að ef það eru færslur á kortinu sem þú þekkir ekki eða telur að það hafi verið svindlað á þér þá getur þú kröfu um að fá endurgreitt. Það ferli tekur samt langan tíma og því minnkar fyrirframgreitt kort vesenið.
Fjölþátta auðkenning er að verða algengari þegar kemur að greiðslu með kreditkortum og það eykur öryggið mikið en ekki nóg þar sem oft dugir númerið á kortinu og gildistími til fá í gegn greiðslur.
Gott er að forðast að nota debetkort í viðskiptum sem ekki eru alveg örugg. Ef númerið á debetkortinu fer á flakk og það er misnotað þá er bankareikningur á bakvið það sem er mögulega tæmdur og háar upphæðir geta verið undir. Það gildir það sama um það að hægt er að krefjast endurgreiðslu en það tekur langan tíma og á meðan er bankareikningurinn tómur og það getur valdið miklum vandræðum.